Haustið 2009 gerði Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands könnun fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið þar sem leitast var við að kortleggja menningarneyslu landsmanna. Þátttakendur voru spurðir um þátttöku í mismunandi tegundum menningarviðburða á síðastliðnum 12 mánuðum, bóklestur, fjölmiðlanotkun og einnig var spurt um viðhorf til menningar. Menningarvogin er yfirgripsmesta könnun sinnar tegundar sem gerð hefur verið hér á landi og stefnt er að því að endurtaka hana með reglubundnum hætti til að fylgjast með menningarneyslu Íslendinga.