Fordómar í alþjóðlegu samhengi: Rannsókn á viðhorfum Íslendinga til geðrænna vandamála, er hluti af Stigma in Global Context: Mental Health Study (SGC-MHS) sem er alþjóðlegt samstarf. Tilgangur þessara rannsókna er að varpa ljósi á skoðanir og fordóma almennings í garð fólks sem á við geðræn vandamál að stríða. Alls eru 16 lönd í samstarfinu. Þessi lönd eru einnig meðlimir í International Social Survey Program (ISSP). Könnunin er sambærileg í öllum löndunum 16, könnuð eru viðhorf og fordómar til einstaklinga sem þjást af alvarlegu þunglyndi eða geðklofa. Rannsóknin sem hér er birt nær einnig til fordóma í garð innflytjenda, samkynhneigðra o.fl. Einnig er komið inn á skoðanir svarenda á íslenska heilbrigðiskerfinu, notkun geðlyfja og íslensku samfélagi almennt. Rannsóknir hafa leitt í ljós að fordómar og neikvæð viðhorf í garð þeirra sem eiga við geðræn vandamál að stríða eru afar útbreidd, en slík viðhorf virðast skerða lífsgæði og batahorfur einstaklinga sem þjást af vandamálum af þessum toga.