Í apríl til júní 2020 gerði Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, í samstarfi við fræðafólk á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands, könnun á þátttöku og afstöðu Íslendinga til aðgerða almannavarna til að hefta útbreiðslu COVID-19 faraldursins. Könnunin var send í áföngum á netpanel Félagsvísindastofnunar yfir rúmlega tveggja mánaða tímabil. Markmiðið var að kortleggja hegðun og afstöðu almennings með tilliti til aðgerða almannavarna og greina hvernig afstaða fólks til aðgerðanna breytist yfir tíma. Sú vitneskja verður ekki síst verðmæt þegar faraldurinn hefur gengið yfir og vísindafólk fer í þá vinnu að meta árangur aðgerðanna.